Þann 18. desember 2020 féll stór aurskriða á safnasvæði Tækniminjasafnsins. Margar sögufrægar byggingar eyðilögðust og skemmdust auk skrifstofa safnsins, hluta sýninga þess og geymslum sem hýstu safnkost þess.

Tækniminjasafn Austurlands hefur fjallað um sögu Austurlands með áherslu á tæknivæðingu frá um 1880  til 1050. Þar hefur verið varpað ljósi á hvernig tækninýjungar á fjölmörgum sviðum, t.d. véltækni, rafmagn, fjarskipti, samgöngur og byggingarlist, voru samofnar breytingum á lifnaðarháttum á Seyðisfirði og landinu öllu.

Framtíð safnsins er í uppnámi en einnig áhugaverð og spennandi. Við erum bjartsýn og vonumst til að opna safnið fljótlega aftur á nýjum stað, þar sem sérkenni safnsins sem lifandi safns með vinnustofum og verkstæðum verða í forgrunni.

Frá því að skriðan féll hefur aðaláhersla okkar verið á að tryggja varðveislu þess hluta safnkostsins sem slapp undan skriðunni, hreinsa hann og skipuleggja, auk vinnu við endurreisn þessa spennandi safns.

VJelasmiðja Jóhanns Hanssonar (1907)

Meðal menningarbygginga sem Tækniminjasafnið varðveitir og hefur umsjón með er Vjelasmiðja Jóhanns Hanssonar sem síðar varð Vélsmiðja Seyðisfjarðar.  Vjelasmiðjan var stofnuð 1907 og varð brátt öflugt fyrirtæki á landsvísu. Árið 1918 var hún stækkuð til muna og bættist þá við málmbræðsla þar sem framleidd voru m.a línuspil og alls kyns varahlutir í bátavélar. Vélsmiðja Seyðisfjarðar hóf stálskipasmíði árið 1967, en starfsemi fyrirtækisins lagðist af 1993.  Elsta húsasamstæða Vjelasmiðjunnar er nú hluti af fastasýningum safnsins.  Auk þess er húsnæðið notað sem kennsluaðstaða fyrir ýmis handverksnámskeið. 

THE BOY FROM DJÚPIVOGUR - NETSÝNING

gAMLA sÍMSTÖÐIN(1894)

Gamla símstöðin, öðru nafni Wathneshús var upprunalega reist árið 1894 sem íbúðarhús norska athafnamannsisns Ottó Wathne. Í tengslum við lagningu sætrengsins frá meginlandinu til Íslands keypti Mikla norræna ritsímafélagið húsið og opnaði fyrstu ritsímastöð landsins 25. ágúst 1906. Landstjórnin eignaðist húsið 1926 og Póst og símamálastofnun gáfu Seyðisfjarðarkaupstað það undir safn 1973. Tækniminjasafnið er með sýningar á efri hæð. 

Sýningin segir frá komu strengsins og hvernig hann var tengdur til Reykjavíkur.  Þar er hægt að sjá ritsímatækin frá gömlu símstöðinni. Einnig eru þar munir sem tengjast samskiptum á tuttugustu öldinni.

--- DASHES & DOTS ···  - NETSÝNING