AFTURGANGAN  hefst í kvöld 31. október við Tækniminjasafnið kl. 20:00. Götuljósin slökkt í bænum og bæjarbúar eru hvattir til að myrkva hús sín á meðan gangan fer fram. Göngufólk er hvatt til þess að koma með luktir, blys eða kyndla með sér í gönguna. Einnig að skreyta sig með ljósaseríum og/eða klæðast einhverju skuggalegu. Endar í kirkjunni.  

Printing Matter sýning - á Tækniminjasafninu lau. 22/9 kl. 16

Camille Lamy, Katherine Leedale, Miriam McGarry, Nathalie Brans, Pauline Barzilai, Rosie Flanagan, Wilma Vissers

Á laugardaginn verður til sýnis afrakstur úr Printing Matter sem er þematengd vinnustofa á vegum Skaftfells í samstarfi við Tækniminjasafn Austurlands.

Þetta er þriðja skiptið sem Printing Matter er hleypt af stokkunum. Að þessu sinni taka sjö listamenn hvaðanæva úr heiminum þátt í vinnustofunni sem hófst í byrjun september og stendur í þrjár vikur.

Ferlið hefur verið með svipuðu sniði og áður, en lögð er áhersla á bókverk og ólíkar prentaðferðir sem og skapaður vettvangur fyrir þekkingarskipti, samtal og samstarf milli þátttakenda. Leiðbeinendur eru Åse Eg Jörgensen og Litten Nyström.

Síðustu vikur hefur hópurinn notið fallegra haustlita sem prýða fjörðinn og mikið hefur verið lagt upp úr göngutúrum í nágrenninu á milli þess sem þau vinna að bókverkagerð.


Sýningin fer fram í Tækniminjasafninu milli kl. 16:00-18:00. Allir velkomnir og í boði verður aðstaða fyrir börn að spreyta sig á einfaldri prentun.

Tækniminjasafn Austurlands fjallar um sögu Íslands með áherslu á tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag.  Sýndir eru m.a. munir, minjar, hús, myndir og verkferlar.  Vegna sérhæfingar okkar sem minjasafns er fjallar um nútímavæðingu þjóðarinnar er mikið um óvenjulegar vélar og búnað og aðrar menningarminjar sem ekki eru til sýnis í mörgum öðrum söfnum landsins.   Tækniminjasafnið sýnir hvernig tæknibreytingar á fjölmörgum sviðum, t.d. véltækni, rafmagn, fjarskipti, samgöngur og byggingalist eru samofnar breytingum á lifnaðarháttum og umhverfi. Safnið er einnig byggðasafn Seyðfirðinga.  Haldin eru námskeið og sýningar auk þess sem við stundum rannsóknir og kennslu og tökum þátt í margvíslegu menningarstarfi og samstafsverkefnum.  Sýningar eru lifandi og leitast við að endurvekja andrúm tímans sem fjallað er um. Safnasvæðið er jafnframt tilvalið útisvistarsvæði fyrir gönguferðir og samveru.  Lítil verslun er á safninu þar sem hægt er að fá bækur, sælgæti og minjagripi.

Vjelasmiðja Jóhanns Hanssonar (1907)

Meðal menningarbygginga sem Tækniminjasafnið varðveitir og hefur umsjón með er Vjelasmiðja Jóhanns Hanssonar sem síðar varð Vélsmiðja Seyðisfjarðar.  Vjelasmiðjan var stofnuð 1907 og varð brátt öflugt fyrirtæki á landsvísu. Árið 1918 var hún stækkuð til muna og bættist þá við málmbræðsla þar sem framleidd voru m.a línuspil og alls kyns varahlutir í bátavélar. Vélsmiðja Seyðisfjarðar hóf stálskipasmíði árið 1967, en starfsemi fyrirtækisins lagðist af 1993.  Elsta húsasamstæða Vjelasmiðjunnar er nú hluti af fastasýningum safnsins.  Auk þess er húsnæðið notað sem kennsluaðstaða fyrir ýmis handverksnámskeið.  Tækniminjasafn Austurlands Seydisfjordur.
Vjelasmiðja Jóhanns Hanssonar