Laugardaginn 23. mars 2019

PRINTING MATTER – SÝNING #4

Laugardaginn 23. mars, kl. 16:00-18:00, í Tækniminjasafni Austurlands, Seyðisfirði.

Amy Uyeda (CA), Apolline Fjara (FR), Eva Bjarnadóttir (IS), Labhaoise Ni Shuilleabhain (IE), Mary Buckland (CA), Olga Adele (LV), Shanice Tasias (CH)

Laugardaginn 23. mars munu sjö listamenn sýna útkomu þeirra í tengslum við Printing Matter, sem er þematengd vinnustofa á vegum Skaftfells í samvinnu með Tækniminjasafni Austurlands.

Þematengdu gestavinnustofur Skaftfells eru hugsaðar sem vettvangur til að deila þekkingu, eiga samtal og samstarf milli þátttakenda. Printing Matter er nú haldið í fjórða sinn og hefur síðustu þrjár vikur leitt saman listamenn hvaðanæva. Listamennirnir hafa, undir handleiðslu Åse Eg Jörgensen og Piotr Kolakowski, skoðað og velt fyrir sér bókverkagerð auk hefðbundinna og tilraunakenndra prentaðferðir til að búa til seríur og fjölfeldi. Þær hafa fengið aðgang að pressum sem eru safngripir og voru áður í eigu Dieters Roth en eru nú varðveittar á Tækniminjasafni Austurlands. Þar að auki hafa þær geta nýtt sé silkiþrykksaðstöðu í umsjá Skaftfells sem er staðsett í Frumkvöðlasetrinu á Öldugötu.

Sýningin verður aðeins opin 23. mars í Tækniminjasafni Austurlands. Í boði verða léttar veitingar og tækifæri fyrir börn til að leika sér með einföldum prentaðferðum. Allir eru velkomnir.

Þorskur í prenti.

Åse Eg Jörgensen kennari

Piotr Kolakowski kennari

Tækniminjasafn Austurlands fjallar um sögu Íslands með áherslu á tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag.  Sýndir eru m.a. munir, minjar, hús, myndir og verkferlar.  Vegna sérhæfingar okkar sem minjasafns er fjallar um nútímavæðingu þjóðarinnar er mikið um óvenjulegar vélar og búnað og aðrar menningarminjar sem ekki eru til sýnis í mörgum öðrum söfnum landsins.   Tækniminjasafnið sýnir hvernig tæknibreytingar á fjölmörgum sviðum, t.d. véltækni, rafmagn, fjarskipti, samgöngur og byggingalist eru samofnar breytingum á lifnaðarháttum og umhverfi. Safnið er einnig byggðasafn Seyðfirðinga.  Haldin eru námskeið og sýningar auk þess sem við stundum rannsóknir og kennslu og tökum þátt í margvíslegu menningarstarfi og samstafsverkefnum.  Sýningar eru lifandi og leitast við að endurvekja andrúm tímans sem fjallað er um. Safnasvæðið er jafnframt tilvalið útisvistarsvæði fyrir gönguferðir og samveru.  Lítil verslun er á safninu þar sem hægt er að fá bækur, sælgæti og minjagripi.

Vjelasmiðja Jóhanns Hanssonar (1907)

Meðal menningarbygginga sem Tækniminjasafnið varðveitir og hefur umsjón með er Vjelasmiðja Jóhanns Hanssonar sem síðar varð Vélsmiðja Seyðisfjarðar.  Vjelasmiðjan var stofnuð 1907 og varð brátt öflugt fyrirtæki á landsvísu. Árið 1918 var hún stækkuð til muna og bættist þá við málmbræðsla þar sem framleidd voru m.a línuspil og alls kyns varahlutir í bátavélar. Vélsmiðja Seyðisfjarðar hóf stálskipasmíði árið 1967, en starfsemi fyrirtækisins lagðist af 1993.  Elsta húsasamstæða Vjelasmiðjunnar er nú hluti af fastasýningum safnsins.  Auk þess er húsnæðið notað sem kennsluaðstaða fyrir ýmis handverksnámskeið.  Tækniminjasafn Austurlands Seydisfjordur.
Vjelasmiðja Jóhanns Hanssonar